Sýning Hugsteypunnar Umgerð kallast á við fyrri sýningar tvíeykisins þar sem settar eru fram vangaveltur um eiginleika og gildi verka sem listamenn skapa. Hvaða huglægu og efnislegu þættir móta listaverk og hvaða hlutverk leikur samhengið sem verkið er sett fram í? Verk Hugsteypunnar ramba á mörkum málverks og ljósmyndar eða stakstæðra skúlptúra og heildrænna innsetninga.
Myndlist er ólíkindatól sem virðist geta innlimað eiginleika úr öllum áttum en skilgreining á fyrirbærinu sjálfu rennur manni þó stöðugt úr greipum. Þessi óvissa knýr áfram leit og leik Hugsteypunnar. Niðurstöður benda einatt í sömu átt; að sama hvaða kerfi við notum þá munu tvær manneskjur aldrei skilja og skynja sama hlutinn á nákvæmlega sama máta. Þrátt fyrir að almennt sé gengið út frá því að það sem einn segir sé móttekið og skilið af öðrum, mætti færa rök fyrir því að svo sé alls ekki. Skilningur manna á orðum og samhengi er mismunandi frá einum einstaklingi til annars. Í myndlist Hugsteypunnar er ekki endilega krafa uppi um að áhorfandinn skilji fyllilega það sem listamennirnir tjá, en þess vænst að hann beri kennsl á tilburði þeirra til tjáningar og leggi sitt af mörkum til þess að móttaka hana.
Á sýningunni Umgerð einsetur Hugsteypan sér að skoða myndlist bæði frá eigin sjónarhóli sem listamanna en jafnframt með augum áhorfenda. Sýningarrýmið er undirlagt þrívíðri innsetningu sem teygir anga sína um veggi og gólf. Að miklu leyti er um fundin efni að ræða sem gegna alla jafna afmörkuðu hlutverki en innan sýningarsalarins eru þau tekin úr því samhengi og þjóna heildarmyndinni. Þar eru einnig ljósmyndir sem eru undir sömu sök seldar. Þeim er ekki ætlað að standa sem stakar eftirmyndir neins sérstaks heldur sem partur af hinni óhlutbundnu heild þar sem allt er lagt að jöfnu. Áhorfendur geta gengið um sýningarrýmið og virt fyrir sér það sem fyrir augu ber. Um ótal sjónarhorn er að ræða og eins tekur innsetningin breytingum þar sem mismunandi myndum er varpað yfir salinn og lýsingin breytist. Gestum er boðið að beina sjónum hvert sem er og frá hvaða vinkli sem er í þessari fagurfræðilegu tilraun um skynjun.
Til álita kemur spurningin um framhaldslíf listaverks þegar listamaður sleppir af því hendinni. Hvers konar myndir gera ólíkir áhorfendur sér af verkinu og hvað verður um þær þegar frá er horfið? Til þess að takast á við þessa pælingu bætist nú virk þátttaka sýningargesta við þá reynslu sem hlýst af því að njóta sýningarinnar í Hafnarborg. Hugsteypan hvetur alla sem eru til þess tækjum búnir að taka myndir í innsetningunni á hvern þann máta sem verkið blæs þeim í brjóst. Sé myndunum deilt á netið eftir leiðbeiningum hér neðst á síðunni verður þeim jafnframt varpað inn í sýningarrýmið og þær verða þannig hluti af innsetningunni. Þetta vekur spurningar um höfundarhlutverkið; áhorfendur verða höfundar eigin mynda sem eru innblásnar af verki Hugsteypunnar og hafa áhrif á það um leið. Í sumum tilvikum verða myndir gestanna ef til vill eina birtingarmynd sýningarinnar gagnvart áhorfendum sem ekki sjá hana með eigin augum. Þannig verður til lagskipt upplifun fyrirbærisins, þar sem afstaða milliliðarins hefur sitt að segja.
Viðfangsefni samtímalistamanna sem takast á við óvissuna um kjarna verka sinna – sem og flækjustigin sem blasa við áhorfendum við lestur þeirra og túlkun – beinast öll í sömu átt. Þegar allir þessir þættir eru á reiki dúkkar upp spurningin um hvers virði þetta umstang sé yfir höfuð? Ef listamaður hefur enga stjórn á því hvernig áhorfandi móttekur verk (og þau kunni í besta falli að verða misskilin), hvað drífur þá myndlistina áfram? Svörin við því marka hið gráa svæði listsköpunar nú á dögum. Enn ríkir tiltrú á að listamenn og áhorfendur geti mæst í verkinu og uppskorið við það eitthvað sem skiptir máli. Að listaverkið verði eins konar millistykki eða fjöltengi sem sköpunarkraftur og sköpunargleði streyma um. Til þess að svo megi áfram vera þurfa listamenn og áhorfendur að gangast við því að myndlist sé leikur sem þess virði sé að leika. Hún er fjöreggið sem tröll í þjóðsögum kasta sín á milli og hafa af því mikla unun en brotni það verður það þeirra bani. Listin þrífst því aðeins að listamenn og áhorfendur haldi henni á lofti. Hugsteypan kastar nú egginu til áhorfenda og forvitnilegt verður að sjá hverju þeir kunna að svara.
Útdráttur úr sýningartexta Markúsar Þórs Andréssonar frá sýningu Hugsteypunnar í Listasafni Akureyrar.