Styttur bæjarins byrjaði sem útilistaverk sem sýnt var á Óðinstorgi 21. september 2012 í tilefni af alþjóðlegum PARK(ing) DAY þar sem bílastæðum um heim allan er breytt í almenningsgarða í einn dag. Búið var til lítið torg á miðju bílastæði þar sem gestum og gangandi var boðið að stíga upp á stöpul og verða þar með stytta bæjarins um stund. Hver stytta var ljósmynduð og myndaðist þannig ljósmyndasería sem sýnd var í Artíma galleríi í október 2012.
Í borginni finnst aragrúi af styttum, minnisvörðum um látið fólk, sem fæst okkar taka eftir á þönum okkar í gegnum bæjinn. Verk Hugsteypunnar er innsetning þar sem áhorfendum gefst tækifæri til að setja sig á stall og verða hluti af borgarmyndinni í augnablik. Verkinu er ætlað vekja fólk til umhugsunar um almenningsrými í borginni, hvernig mætti betur virkja þessi rými og vekja athygli á þeim útilistaverkum sem þar finnast. Með verkinu mynduðust ótal margar nýjar styttur, ný minnismerki um fólkið sem var á staðnum þennan dag. Þessar tímabundnu styttur voru ljósmyndaðar og þar með urðu nýjir minnisvarðar til. Minnisvarðar um fólk dagsins í dag.