Essentia Í bili, 2011

Verkið Essentia Í bili er lítill skúlptúr gerður úr 48 tilraunaglösum sem raðað er upp á krossviðsgrind. Skúlptúrnum fylgir lítil skýringarmynd í formi plakats. Tilraunaglösin tákna listamennina sextán sem tóku þátt í sýningunni Í bili í Hafnarborg haustið 2011. Hverjum listamanni voru gefin þrjú glös og þau fyllt af málningu, en magn hennar og litur voru ákvörðuð út frá kerfi sem byggir á númeralógískum útreikningum á þessum listamönnum.

Númeralógía eða talnaspeki grundvallast á þeirri hugmynd að til sé ósýnilegur strúktúr sem stýrir örlögum einstaklinga og samsetningu alheimsins. Samkvæmt þessari aldagömlu speki er mögulegt út frá nafni og fæðingardegi einstaklings að reikna út persónuleika, kosti og galla, ævi og örlög viðkomandi á grundvelli einfaldrar samlagningar.

Um verkið segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar: „Hugsteypan tekur kerfið frjáslega í sína þágu með því að kortleggja þátttakendur sýningarinnar og búa til litla heimsmynd, eða míkrókosmos byggða á þeim. Rétt eins og furðustofur Endurreisnarinnar voru smættuð ímynd alheimsins er míkrókosmos Hugsteypunnar huglæg túlkun þeirra á eigin safni sem þær eru einráðar yfir, og staðsetja það síðan á opinberu safni. Verkið leitar á áhugaverðan hátt á mörk vísindalegra rannsóknaaðferða og fagurfræðilegrar túlkunar, dvelur í bilinu sem mótsögnin milli stærðfræðilegra staðreynda og örlagatrúar myndar.“