Distant Fieldwork, 2011

Distant Fieldwork er innsetning byggð á númeralógískum greiningum á 22 löndum. Út frá nafni hvers lands og fæðingardegi, sem fundinn var með því að kanna þjóðhátíðardaga landanna, voru reiknaðar þrjár lykiltölur: fæðingartala, nafnatala og sérhljóðatala. Hvert land fékk plakat með sínum útreikningi, hillu sem í hengu þrjú tilraunaglös með akrýlmálningu, en litur hennar táknaði tölur hvers lands, og loks texta sem þar sem kostir og gallar hvers lands eru túlkaðir út frá þessum sömu tölum með hjálp frá til þess gerðum greiningarvélum sem finna má víða á internetinu.

Löndin 22 voru valin út frá könnun á þjóðerni og búsetu allra þeirra listamanna sem tóku þátt í sýningunni Island, 22 Artists on Iceland. Úrtakið var því listamenn sýningarinnar, en þættir sem voru kannaðir voru þjóðerni, fæðingarstaður, og í hvaða löndum hver einstaklingur hefur haft fasta búsetu í gegnum ævina. Þannig gat sami listamaður tengst fleiru en einu landi og eins voru sum lönd tengd mörgum listamönnum.

Með því að nota númeralógíska greiningaraðferð á lönd í stað einstaklinga veltum við fyrir okkur hugtökum eins og þjóðarsál, sjálfsmynd þjóðar og þjóðarímynd og hvernig þessi hugtök hafa áhrif á sál og ímynd þeirra einstaklinga sem búa í landinu. Þannig viljum við velta fyrir okkur samspili þjóðareinkenna og persónueinkenna og jafnframt spurningunni um hvort maður sem persóna litist af þjóðerni sínu eða þeim löndum sem maður hefur búið í um ævina.