Ólógía I er fyrsta verkið i verkseríunni Ólógía, en seinna hafa litið dagsins ljós Ólógía II og Ólógía III. Verkserían Ólógía er samansafn nokkurra ótengdra verka sem raðað saman í stærri innsetningu. Serían fjallar í grófum dráttum um mörk persónulegrar sköpunar og almennrar þekkingarframleiðslu og þekkingarflokkun.
Við gerð verksins Ólógía er ferli þekkingarflokkunar sett undir smásjá og snúið útúr á ýmsa vegu. Höfundar verksins setja sig báðum megin við borðið og eru bæði í hlutverki myndlistarmanna og jafnframt fræðinga sem flokka og greina verkið. Greiningin gefur áhorfandanum fyrirheit um ákveðna lógík sem hann á sama tíma er rændur af þar sem hún er á allan hátt persónuleg og ólógísk. Greiningarkerfið sem notast er við er bókasafnsflokkunarkerfi Deweys sem í þessu tilfelli er notað til að flokka myndefni verkanna sem búið er að raða niður í klasa. Klösunum eru gefnar tölur fyrir hvern flokk sem innihald þeirra snertir á einhvern hátt, eins margar og þurfa þykir. Rauðir þræðir eru notaðir til að tengja verk sem hafa sameiginlegar flokkunartölur.
Með þessum hætti mætti áætla að höfundar verksins telji verkin innibera ákveðna þekkingu eins og bækur á bókasafni og beri að flokka sem slík, en með því að leggja tölurnar saman í eina samtölu er sú staðhæfing á einhvern hátt undirgrafin þar sem samtalan finnst ekki í kerfi Deweys. Samtalan fær ákveðið táknrænt gildi sem hækkar eftir því sem verkið snertir á fleiri flokkum.
Með verkinu vilja höfundar vekja upp spurningar um hvort listaverk innihaldi þekkingu sem beri að miðla og á hvaða hátt á sú miðlun að eiga sér stað? Er miðlunin hluti af verkinu eða skapast nýtt lag (nýtt verk) við túlkunina? Býr listamaðurinn verkið til fyrir sjálfan sig eða fyrir ákveðna áhorfendur? Kemur listsköpunin innan frá eða utan frá?